Author Archives: Sigurjón Mýrdal

Norrænt samstarfsverkefni um leiðsögn nýliða í kennslu

Kennarasamband Íslands tekur nú þátt í norrænu samstarfsverkefni um leiðsögn  nýliða í kennslu en í því taka einnig þátt fulltrúar frá Danmörku, Noregi og Grænlandi og tveir háskólar sem mennta kennara, þ.e. Háskólinn í Suðaustur Noregi og Háskólinn í Åbo í Finnlandi. Verkefnið stendur yfir árin 2017-2020. Nordplus Horisontal veitti styrk til verkefnisins. Samstarfið miðar að því að beina sjónum að því þegar kennarar hefja kennslu og ræða aðstæður nýliða til starfsþróunar fyrstu fimm árin í starfi.

Helstu markmið verkefnisins eru:

  • Að fjölga nýliðum í kennslu og að halda þeim í starfi með því að beina sjónum að óskum og þörfum verðandi kennara og þá sérstaklega að tímanum frá því að formlegri kennaramenntun er lokið og til þess að kennarar hefja kennslu.
  • Að safna saman þekkingu á þörfum nýliða í kennslu til að byggja upp stuðningskerfi við nýliða og þarmeð auka gæði náms og kennslu.
  • Að liðka fyrir því að norrænu löndin geti þróað gott leiðsagnarkerfi fyrir nýliða þar sem gæðaleiðsögn er snar þáttur.
  • Að þróa gæði í leiðsögn með samstarfi háskóla sem mennta kennara, kennarasamtaka og skóla. Framlag verkefnisins til þessa er að miðla rannsóknum og þekkingu um bakgrunn nýliða í kennaranáminu og hæfni þeirra sem getur orðið til að styrkja fagstéttina.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á vefsíðu þess sem finna má hér:

https://www.nyutdannede.no/veiledningsordninger/internasjonalt-samarbeid/nordplus-horizontal-nordisk-nettverk-nye-laerere/

Þá má á þessari síðu hér finna margs konar forvitnilegar upplýsingar um leiðsögn við nýja kennara í Noregi.

https://www.nyutdannede.no/

Umsjónarmaður verkefnisins hjá KÍ er Anna María Gunnarsdóttir – anna@ki.is

Ný skýrsla um faglegar kröfur til kennara og stjórnenda í tónlistarskólum

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda hefur látið vinna skýrslu um faglegar kröfur til kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og breytingar á starfsumhverfi þeirra. Þessari vinnu er ætlað að byggja undir tillögur samstarfsráðsins eða stoðkerfi sem byggja þarf upp svo starfsþróun fagstétta í skólakerfinu sé í takt við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Lesa skýrslu!

Samspil 2018: Fræðsluátak um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla

samspil2015

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og Stýrihópur um úttekt á menntun fyrir alla efna til fræðsluátaks um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla í samstafi við Menntamiðju. Markmið Samspils 2018 er að þátttakendur fræðist um starfsþróun og nýjar kennsluaðferðir og námstækni fyrir fjölbreytta nemendahópa um leið og þeir taka þátt í að byggja upp öflug og kvik starfssamfélög skólafólks á Netinu og í raunheimum.

Samspil 2018 er fyrir alla áhugasama sem koma að skóla- og fræðslustarfi á öllum skólastigum um allt land. Þátttakendur í Samspili 2018 mæta á tvo stutta fræðsludaga sem verða haldnir á sex stöðum á landinu (Reykjavík, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Neskaupsstað og Selfossi).

risaedlaFræðsludagarnir verða: 7. nóvember, 2018. kl. 16.15-17.45 og svo 28. nóvember, 2018. kl. 16.15-18.30. Önnur fræðsla fer fram á Netinu og á samfélagsmiðlum. Fjöldi sérfræðinga, fræðimanna og reynslubolta úr skólum mun aðstoða þátttakendur.  Nánari upplýsingar og skráning á vef Samspils 2018.

Ný skýrsla sem tengist starfsþróun í framhaldsskólum

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda hefur látið vinna skýrslu um faglegar kröfur til framhaldsskólakennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda og breytingar á starfsumhverfi þeirra á framhaldsskólastiginu. Þessari vinnu er ætlað að byggja undir tillögur samstarfsráðsins um þann stuðning eða stoðkerfi sem byggja þarf upp svo starfsþróun fagstétta í skólakerfinu sé í takt við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Skýrslur um starfsþróun á grunnskólastigi og í tónlistarskólum eru væntanlegar.

SKÝRSLAN:  Faglegar kröfur til framhaldsskólakennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda og breytingar á starfsumhverfi þeirra.