Author Archives: Sólrún Harðardóttir

Opinn fundur um starfsþróun kennara 31. ágúst 2015

gerduberg_

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara mun standa fyrir opnum fundi 31. ágúst 2015 kl. 10.00-14.00 í Gerðubergi, Reykjavík um hlutverk, ábyrgð og skyldur aðila fagráðs hvað varðar málefni starfsþróunar kennara, ráðgjafa og skólastjórnenda í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum.

Aðilar fagráðs eru menntamálaráðuneyti, háskólar sem mennta kennara, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands.

Markmið fundarins er að skapa umræðu um þetta og leitast við að greina á hvaða sviðum aðilar fagráðs eru samstíga og ósamstíga og hvort greina megi svið sem enginn virðist bera ábyrgð á. Fulltrúar aðila munu greina frá sinni sýn og fyrir munu liggja skrifleg svör þeirra við ákveðnum spurningum frá stýrihópi fagráðs. Þess er vænst að umræður á þessum fundi geti orðið mikilvægt framlag til stefnumótunarvinnu fagráðsins um starfsþróun kennarastéttarinnar. Nánari dagskrá verður send út um miðjan ágúst.

Þess má geta að fundinum verður streymt og hægt verður að vera í sambandi í gegnum twitter #starfsthrounkennara3108 eða solrun@namsmat.is

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum um málefnið, en fólk er vinsamlega beðið að skrá sig á eftirfarandi slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/opinn_fundur_3108_2015_starfsthroun_kennara.
Aðgangur er ókeypis.

SKRÁNING

Veflæg upplýsingaveita opnuð

Ráðherra opnar upplýsingaveitu

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherrra opnar upplýsingaveitu. Á myndinni eru einnig Sigurjón Mýrdal formaður fagráðsins og Sólrún Harðardóttir starfsmaður þess.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra opnaði formlega, þann 19. mars sl., upplýsingaveitu fyrir fræðslutilboð sem ætluð eru kennurum, skólastjórnendum, kennslu-, náms- og starfsráðgjöfum í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum.

Markmið upplýsingaveitunnar er tvíþætt: að miðla og að veita yfirsýn. Vonast er til að sem flest fræðslutilboð sem ætlað er að styrkja umræddar starfsstéttir faglega og stuðla þannig að starfsþróun þeirra verði birt á upplýsingaveitunni s.s. námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, málþing og samstarfsverkefni. Með því móti verða þau aðgengileg fyrir væntanlega þátttakendur en færir einnig fræðsluaðilum og öðrum mikilvægar upplýsingar um hvað er í boði og á hvaða sviðum skortir framboð. Auðvelt er að leita í upplýsingaveitunni og eru fræðslutilboðin sérstaklega merkt útfrá skólastigum, skólagerðum, viðfangsefnum og formi kennslunnar.

Ef vel tekst til verður upplýsingaveitan fastur viðkomustaður skólafólks í nánustu framtíð. Fræðsluaðilar munu setja þar inn efni endurgjaldslaust. Til að byrja með verða það háskólarnir sem mennta kennara sem setja inn efni en öðrum gefst kostur á að bætast í hópinn á næstunni.

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur að upplýsingaveitunni. Fagráðið var sett á fót haustið 2012. Stofnun þess kemur í kjölfar vinnu samstarfsnefndar um símenntun kennara sem hóf störf sumarið 2011. Markmið fagráðsins er að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara og skólastjórnenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi auk tónlistarskóla.

Upplýsingaveitan er staðsett hér á vef fagráðsins. SKOÐA

Hluti fagráðsins fylgist með: Steinunn Inga Óttarsdóttir, Ársæll Guðmundsson, Guðmundur Engilbertsson, Klara E. Finnbogadóttir og Ragnheiður Stefánsdóttir

Hluti fagráðsins fylgist með: Steinunn Inga Óttarsdóttir, Ársæll Guðmundsson, Guðmundur Engilbertsson, Klara E. Finnbogadóttir og Ragnheiður Stefánsdóttir

Út er komin skýrslan Starfsþróun kennara; Greining á sjóðaumhverfi

Greining á sjóðaumhverfi - skýrsla

Skýrslan er unnin af Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara.

Markmið skýrslunnar er að varpa ljósi á þau tækifæri sem kennarar hafa til starfsþróunar og hversu miklum fjármunum er veitt til hennar. Greiningin tekur til sjóða sem standa leikskóla-, grunnskóla-, framhaldsskóla- og tónlistarkennurum til boða. Þegar talað er um kennara í skýrslunni er víðast átt við skólastjórnendur líka og ráðgjafa, þ.e. náms- og starfsráðgjafa og aðra ráðgjafa s.s. sérkennslu- og kennsluráðgjafa. Skoðuð er aðkoma ríkis, sveitarfélaga og háskólastofnana að starfsþróun kennara. Vinnan fór fram á tímabilinu febrúar til maí 2014 og aftur í desember 2014 og byggir á þeim upplýsingum sem fengust frá viðeigandi aðilum.

Niðurstöður skýrslunnar eru ekki tæmandi en gefa góða mynd af því hvaða sjóðir styðja starfsþróun kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum, hverskonar starfsþróun er styrkt og hversu miklum fjármunum er varið í málaflokkinn. Ljóst er að sjóðaumhverfi vegna starfsþróunar kennara, skólastjórnenda og ráðgjafa innan skólakerfisins er margslungið og umtalsverðum fjárhæðum er varið til þessara mála í samfélaginu.

Skýrslan er aðgengileg í útgáfuskrá ráðuneytisins: http://www.menntamalaraduneyti.is/utgafuskra/ og á vef RHA: http://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2014/starfsthroun-kennara-greining-sjoda_13.02.15.pdf

Styttist í umsóknarfrest hjá Erasmus +

Erasmus

Leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar sem og tónlistarskólar og myndlistarskólar sem kenna samkvæmt viðurkenndri námskrá, geta sótt um ferða-, námskeiðs- og uppihaldsstyrki til að senda  kennara og  starfsfólk sitt til að sinna námi, gestakennslu eða starfsþjálfun í einu af þátttökulöndum Erasmus+. Sveitarfélög geta einnig sótt um sambærilega styrki fyrir starfsfólk í skólum síns sveitarfélags.

Skólinn / stofnunin sem sendir umsókn þarf að hafa markað sér stefnu um evrópskt samstarf (European Developing plan) og námið/þjálfunin sem sótt er um þarf að tengjast stefnu stofnunar/ skólans eða starfsþróunaráætlun hans.  Í umsókninni þarf skólinn að útskýra þörfina sem er fyrir hendi hjá skólanum til þess að kynna sér eða tileinka ákveðna kennsluaðferð, tækni eða vinnubrögð og hvernig það nýtist skólanum til að uppfylla stefnu sína betur. Eins þarf að segja frá hvernig sú aukna þekking mun nýtast fleirum í skólanum og styðja við stefnu hans, starfsfólk og nemendur. Lágmarksdvöl eru tveir dagar en getur verið tveir mánuðir.  Hver skóli / stofnun getur  sent fleiri en einn kennara og á fleiri en eitt námskeið / starfskynningu en sendir einungis inn eina heildarumsókn.

Umsóknarfrestur er einu sinni á ári og er næst 4. mars 2015. Umsóknir eru rafrænar og er hægt að nálgast umsóknareyðublöð á vef Erasmus+, ásamt leiðbeiningum og ítarlegri upplýsingum: www.erasmusplus.is

ÞB

Frá fræðslufundi um starfsþróun kennara og skólastjórnenda

Endurmenntun HÍ

Fagráðið stóð fyrir fræðslufundi um símenntun og starfsþróun kennara. Fundurinn var haldinn í húsnæði Endurmenntunar HÍ við Dunhaga, 20. nóvember sl. Fundurinn var öllum opinn en hann var sérstaklega auglýstur meðal þeirra hagsmunaaðila sem eiga fulltrúa í fagráðinu. Markmið fundarins var að útbreiða þekkingu á hlutverki og starfi fagráðsins og ræða með þátttöku fundarmanna um stefnumótunarvinnu ráðsins.

Mæting var mjög góð og þurftum við að færa fundinn í stærri stofu en upphaflega var fyrirhugað að nota.

Fundurinn var tekinn upp. > UPPTAKA 

Aðalheiður Steingrímsdóttir var fundarstjóri og dagskráin var eftirfarandi:

Um fagráðið: Hlutverk, verkefni þess, starf í vetur. (Sigurjón Mýrdal formaður)

Hvað segir TALIS um þá þætti sem skipta máli fyrir árangur í skólastarfi? Hvernig getur símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda stutt við það? (Ragnar F. Ólafsson frá Námsmatsstofnun)

Stutt innlegg um íslenska kennara og skóla.
Fulltrúar KÍ (Ingileif Ástvaldsdóttir og Aðalheiður Steingrímsdóttir), háskóla (Jón Torfi Jónasson), Sambands íslenskra sveitarfélaga (Klara E. Finnbogadóttir) og mennta- og menningarmálaráðuneytis (Sigurjón Mýrdal) reifa atriði sem þeir telja skipta máli í sambandi við símenntun og starfsþróun íslenskra kennara og skólastjórnenda.

Starf í umræðuhópum (Umræðustjórar: Anna María Gunnarsdóttir, Ingibjörg Kristleifsdóttir, Ingileif Ástvaldsdóttir, Jón Torfi Jónasson og Svava Pétursdóttir)
1. Hvaða samstarf fer núna fram milli kennara og skólastjórnenda í skólum um símenntun og starfsþróun kennara? Eru almennt til starfþróunaráætlanir til eins eða fleiri ára?
2. Hvernig ætti þetta samstarf að vera? Hvaða fleiri aðilar ættu að koma að samstarfi um símenntun og starfsþróun?
3. Hver ætti framtíðarsýnin að vera varðandi símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda?
- Hvaða bjargir eru nauðsynlegar til að starfsþróun verði skilvirk.
- Hvers konar starfsþróun teljið þið mikilvægt að þróa til að bæta árangur skólakerfisins?
4. Hvað finnst ykkur mikilvægast að komi út úr starfi fagráðsins?

Upplýsingaveita og vefur fagráðs (Sólrún Harðardóttir)

Punktar frá umræðuhópum.

Halldór Árni Sveinsson tók fundinn upp og sendi jafnframt út í rauntíma. Hér má nálgast upptökuna. 

 

Þrautalausnir og starfsþróun kennara

Flötur

Í Flatarmálum (1. tbl. 2014) sem er rit Flatar, samtaka stærðfræðikennara er áhugavert viðtal við Steve Watson háskólakennara í Cambridge í Englandi. Sérsvið hans er stærðfræðikennsla og -menntun og hefur hann beint mikið athygli að þrautalausnum. Hann telur þær æskilega leið til að efla skilning nemenda og þær gefa meiri tækifæri til umræðu og þess að skyggnast inn í hug nemenda og sjá hvernig þeir hugsa. Jafnframt vekja þrautalausnir oft meiri áhuga en önnur verkefni stærðfræðinnar og eru nátengdar raunveruleikanum. Steve telur að vegna sveigjanleika skólakerfisins séu Íslendingar betur í stakk búnir en margar aðrar þjóðir, s.s. Englendingar, til að vinna meira útfrá þrautalausnum og almennt að breyta kennsluháttum. Hann ræðir um mikilvægi stuðnings við kennara í þessu samhengi.

Greinina má lesa í heild sinni HÉR.

Starfsþróun og símenntun í vinnumati kennara

Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir kjarasamning í vor og felur samningurinn m.a. í sér gerð nýs vinnumats kennara þar sem metinn verður sá tími sem kennari ver til skilgreindra verkefna. Vinnumatinu er ætlað að jafna vinnuálag milli kennara og styrkja faglegt starf innan grunnskóla. Nú eru komin fram drög að leiðarvísi fyrir slíkt vinnumat. Um símenntun og starfsþróun segir í þessum drögum:

Starfsþróun og símenntun

Starfsþróun og símenntun kennara er afar mikilvægur þáttur í skólastarfi. Kennarar þurfa svigrúm og
stuðning til að sinna starfsþróun. Með því byggja þeir ofan á eigin þekkingu og styrkja fagmennsku
sína. Fagmennska kennara er mikilvægasta hreyfiaflið í allri skólaþróun. Hver skóli þarf að móta
menningu sem styður við samstarf kennara um starfsþróun.  

Á hverju ári eru kennurum ætlaðar 150/126/102 klst. sérstaklega til starfsþróunar og aukins
undirbúnings og getur hlutfall hvors þáttar um sig verið mismunandi milli kennara. Mikilvægt er að
kennarar haldi utan um eigin starfsþróun með skipulegum hætti. Starfsþróunaráætlun kennara er
unnin í samvinnu við skólastjóra og tekur bæði mið af símenntunar- og þróunaráætlun skólans og
faglegum þörfum kennara. Að takast á við nýtt námsefni, nýjan aldurshóp eða nýja tækni getur bæði
fallið undir starfsþróun og aukinn undirbúning.

Sérstakur vefur hefur verið settur upp á vegum verkefnisstjórnar um vinnumat: vinnumat.is

Fræðslufundur um símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda

Endurmenntun HÍ

 

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn, 20. nóvember kl. 13 ̶ 16. Fundarstaður er Endurmenntun Háskóla Íslands, Dunhaga 7, 107 Reykjavík.

Fundurinn er á vegum Fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara en haldinn að frumkvæði Kennarasambands Íslands. Í fagráðinu eru fulltrúar Kennarasambands Íslands, háskóla sem mennta kennara, Sambands íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Markmið fundarins er að útbreiða þekkingu á hlutverki og starfi fagráðsins og ræða með þátttöku fundarmanna um stefnumótunarvinnu ráðsins.

Fundurinn er opinn öllum áhugasömum um málefnið.

DAGSKRÁ

Kl. 13.00 – 13.15
Um fagráðið: Hlutverk, verkefni þess, starf í vetur.

Kl. 13.1513.35
Hvað segir TALIS um þá þætti sem skipta máli fyrir árangur í skólastarfi?
Hvernig getur símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda stutt við það?
Ragnar F. Ólafsson frá Námsmatsstofnun

Kl. 13.35 – 14.00
Stutt innlegg um íslenska kennara og skóla. Fulltrúar KÍ, háskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytis reifa atriði sem þeir telja skipta máli í sambandi við símenntun og starfsþróun íslenskra kennara og skólastjórnenda.

 Kl. 14.00 – 14.45 – Starf í umræðuhópum

Umræðuspurningar (með fyrirvara um örlitlar breytingar):

  1. Hvaða samstarf fer núna fram milli kennara og skólastjórnenda í skólum um símenntun og starfsþróun kennara? Eru almennt til starfþróunaráætlanir til eins eða fleiri ára?
  2. Hvernig ætti þetta samstarf að vera? Hvaða fleiri aðilar ættu að koma að samstarfi um símenntun og starfsþróun?
  3. Hver ætti framtíðarsýnin að vera varðandi símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda?
    - Hvaða bjargir eru nauðsynlegar til að starfsþróun verði skilvirk*.
    - Hvers konar starfsþróun teljið þið mikilvægt að þróa til að bæta árangur skólakerfisins?
  4. Hvað finnst ykkur mikilvægast að komi út úr starfi fagráðsins?

Kl. 14.45 – 15.00 - Kaffihlé
Kl. 15.00 – 15.45 – Hópar skila af sér  – umræður
Kl. 15.45 – 15.50 – Upplýsingaveita og vefur fagráðs
Kl. 15.50 – 16.00 – Fundarlok

* skilvirk starfsþróun er starfsþróun sem skilar sér í breyttum starfsháttum kennara og stjórnenda sem leiðir af sér bættan námsárangur nemenda á öllum skólastigum.