Borði - Grænn í haus

Lífsgildi í leikskólastarfi

Kristín Hildur Ólafsdóttir skrifar

Sólrún Óskarsdóttir aðstoðarleikskólastjóri Brákarborgar byrjaði á að kynna leikskólann og helstu áherslur hans. Leikskólinn er einn af elstu leikskólum Reykjavíkur. Hann er skemmtilega staðsettur með tilliti til vinnu með börnunum, stutt er í glæsilega útivistarparadís Reykjavíkur í Laugardal. Leikskólinn er þriggja deilda með 52 börnum og 14 kennurum. Sérstaða Brákarborgar er að þar er mjög hátt hlutfall fagmenntaðra starfsmanna.

Megin áhersla leikskólans er að vinna með einingakubba, opinn efnivið og umhverfismennt. Hugmyndafræðilegur grunnur er sóttur til John Dewey og í starfsaðferðir Caroline Pratt.

Áherslur verkefnis

Hrönn Pálmadóttir lektor við Háskóla Íslands kynnti verkefnið sem unnið er í samstarfi við Rannung, rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. Verkefnið er hluti af norrænni rannsókn þar sem kennarar og rannsakendur frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð koma saman. Megin markmiðið með verkefninu er að skoða hvernig gildi birtast í leikskólastarfi á Norðurlöndum og auka skilning á hver eru opinber tilmæli í menntun varðandi gildi á sviði fræða, aðferða og tölfræðilegra upplýsinga.

Fyrirkomulag rannsóknarinnar er eftirfarandi; rannsóknarteymi í hverju landi fyrir sig vinnur með sameiginleg markmið og kenningar en hvert land hefur sitt eigið rannsóknarsnið.

Þátttakendur

Á Íslandi eru tveir leikskólar þátttakendur í verkefninu, Brákarborg og Ægisborg. Tveir doktorsnemar frá HÍ eru þátttakendur í rannsókninni, einn í hvorum leikskóla. Starfendarannsókn (e. action research) er beitt í báðum skólunum. Megintilgangur starfendarannsókna í skólum er að þróa starfshætti. Í þessu verkefni er markmiðið að skapa þekkingu um gildi í námi barna í leikskólanum og stuðla að breytingum. Kennarar sem taka þátt í starfendarannsókn beina augum að því að breyta og bæta eigin kennslu. Nýjar aðferðir eru þróaðar að hluta til af leikskólakennurunum sjálfum sem jafnframt eru prófaðar í starfi. Skráning er haldin um ferlið og gögnum safnað sem síðan eru greind og unnið áfram með í ferlinu. Ígrundun er mikilvægur hluti af ferlinu.

Ferli verkefnis

Verkefnið hófst vorið 2013 með vali á leikskólunum tveimur. Sótt var um styrki og tilskilin leyfi. Doktorsnemarnir dvöldu í leikskólunum frá mars og til maí 2013 og gerðu vettvangsathuganir, áttu samtöl og tóku viðtöl við starfsmenn um gildi í námi og hvað þeim fyndist mikilvægt. Í maí 2013 voru haldin námskeið í hvorum skóla þar sem ferli starfendarannsóknarinnar var kynnt, umræður um gildi í leikskólastarfi og áherslur leikskólanna voru ræddar. Tvisvar að hausti og vori voru haldnar tveggja tíma málstofur, að loknum vinnudegi, um stöðu verkefnisins í hvorum leikskóla fyrir sig. Hugmyndadagur var einnig haldinn einu sinni að hausti og vori í heilan dag með fyrirlestrum og námskeiðum um viðeigandi efni (lífsgildi, starfendarannsókn, samstarf, samskipti barna og kennara og fagmennsku). Allt starfsfólk í Brákarborg og Ægisborg, doktorsnemarnir og rannsakendur tóku þátt í verkefninu.

Haustið 2013 hófst innleiðing verkefnisins. Doktorsnemarnir heimsóttu leikskólana og söfnuðu gögnum og tóku m.a. myndbönd í leikstundum, matartíma og flæði.

Starfendarannsókn í Brákarborg

Leikskólinn Brákarborg ákvað að vinna með eftirfarandi gildi: umhyggju, virðingu og aga.

Í heimsókninni lýstu þrír leikskólakennarar  því hvernig þeir notuðu mismunandi aðferðir skráningar til að skoða sig í starfi og vinnuferli barnanna í tengslum við þessi gildi.

Ragnar Már Róbertsson deildarstjóri sagði frá verkefni sem hann vann í tengslum við einingakubba. Þar nýtti hann ljósmyndir sem skráningarleið auk skrifa um ferlið.

Elva Önundardóttir leikskólakennari sagði frá hvernig hún vann með hóp barna að því að skoða aga. Verkefnið varð til út frá hugmyndum barnanna og spurningum þeirra. Elva nýtti sér dagbókarskrif til að fylgja eftir ferli umræðna við börnin og skoðaði breytingar á hugmyndum þeirra og eigin aðferðum.

María Björnsdóttir deildarstjóri sýndi myndbandsupptöku af hópi barna í leikstund með einingakubba. Hún lýsti á einlægan hátt hversu erfitt það var fyrir hana að rýna vinnustund með samstarfsfólki og rannsakendum sem hún var kannski ekki fyllilega sátt við. Hún væri færari í að lesa og segja frá eigin brjósti en að vinna með staðlaða einingakubba. Með því að skoða og greina myndbandið með öðrum sá hún aftur á móti aðferðir sínar í nýju ljósi. Uppgötvaði að hún stuðlaði að umhyggju, virðingu og aga í barnahópnum og leikstundin varð því merkingarbærari fyrir hana.

Athyglisvert var að hlusta á lýsingu leikskólakennaranna sem allir voru sammála um að þátttaka í verkefninu hefði gefið þeim einstakt tækifæri til að meta eigin starfshætti og þau gildi sem miðlað er í leikskólastarfinu. Skráningar af ferlinu hefðu einnig gefið þeim mikið ekki síst með því að skoða skráningarnar saman. Sjálfsmat og ígrundun er gefandi og nauðsynlegt fyrir þróun starfsins. Jafnframt var athyglisvert að sjá hvernig leikskólakennararnir nýttu sér mismunandi aðferðir til skráninga.

 

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap