Borði - Grænn í haus

Vinnustofa um Byrjendalæsi fór fram í hlýlegri kennslustofu á annarri hæð í Laugarnesskóla. Vinnustofunni stjórnuðu Jenný Gunnbjörnsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, og Guðbjörg Oddsdóttir, kennari í Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Vinnustofan fór fram á ensku. Jenný er sérfræðingur um byrjendalæsi en Guðbjörg er kennari sem hefur hlotið leiðtogaþjálfun í Byrjendalæsi og hefur notað aðferðina í kennslu í mörg ár. Jenný og Guðbjörg gerðu góða grein fyrir ýmsum þáttum Byrjendalæsis og sýndu meðal annars áhugavert kynningarmyndband sem hægt er að nálgast á netinu. SKOÐA!

Eitt helsta markmiðið með Byrjendalæsi er að nemendur verði læsir sem fyrst eftir að þeir hefja nám í grunnskóla. Byrjendalæsi felur meðal annars í sér áherslu á samband stafs og hljóðs, ritun og sögugerð, leiðir til að auka orða- og hugtakaforða, að draga rétt til stafs, samvinnu, paravinnu og sjálfstæð vinnubrögð. Það byggir einnig á samvinnu kennara, bæði innan skólans og utan.

Frá árinu 2006 hafa margir tugir grunnskólar nýtt sér Byrjendalæsi í lestrarkennslu í 1. og 2. bekk grunnskóla. Hver skóli tekur ákvörðun um þátttöku og gerir samning við forsvarsmenn Byrjendalæsis þar að lútandi. Í samningnum felst meðal annars tveggja ára stuðningur sérfræðinga og leiðtogaþjálfun. Um leið og samningur er gerður fær skólinn aðgang að fjölbreyttum gögnum og efni á lokuðum vef Háskólans á Akureyri.  Gagnasafnið er endurskoðað, bætt og aukið á hverju ári. Kennarar geta einnig skráð sig á  lokað samskiptasíðu á Facebook.

Að sögn Guðbjargar gengur starfið efir aðferðum Byrjendalæsis vel í Hörðuvallaskóla og kennarar telja að þrátt fyrir að innleiðing aðferðarinnar hafið verið krefjandi hafi þeir lært margt og sjálfstraust þeirra og færni til læsiskennslu hafi aukist mikið. Þeir stefna að frekari þróun aðferðarinnar og áframhaldandi notkun hennar í skólanum.

Vandamál sem hafa komið upp í þróunarstarfinu felast til dæmis í því að sumir kennarar hafa tilhneigingu til að hverfa til baka til þeirra leiða sem þeir notuðu áður og nýta einungis hluta þeirra leiða sem í aðferðinni felast. Einnig hefur stundum þótt skorta á stuðning stjórnenda en það er talið eitt af því sem skiptir miklu máli þegar verið er að innleiða nýjar hugmyndir að allir taki þátt í innleiðingarferlinu og að stjórnendur láti sig málið varða. Mikilvægt er að hafa í huga að Byrjendalæsi kallar á breytingar á starfsháttum og gefa þarf svigrúm fyrir breytingar.

Meðal þess sem þátttakendur í vinnustofunni spurðu um var árangur nemenda í lestri í þeim skólum sem hafa innleitt Byrjendalæsi. Jenný og Guðbjörg bentu á rannsókn sem hófst haustið 2011. Ekki er búið að birta endanlegar niðurstöður hennar en væntingar eru um að hún gefi mikilvægar upplýsingar, bæði hvað varðar árangur nemenda og áhrif á starfsþróun kennara. Það sem nú liggur fyrir bendir til þess að starfsþróunarlíkanByrjendalæsis nái til þeirra þátta sem rannsóknir hafa leitt í ljós að eru mikilvægir fyrir árangursríka starfsþróun.

Niðurstöður læsisprófa sem lögð eru fyrir í 1. og 2. bekk í skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi gefa skólum tækifæri til að fylgjast með árangri sinna skóla miðað við meðaltal annarra Byrjendalæsisskóla. Niðurstöður sem teknar voru saman fyrir grunnskóla Akureyrar árin 2006 til 2013 benda til þess að færri börn standi illa að vígi í lestri nú en áður.

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap