Starfsþróun og símenntun í vinnumati kennara

Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir kjarasamning í vor og felur samningurinn m.a. í sér gerð nýs vinnumats kennara þar sem metinn verður sá tími sem kennari ver til skilgreindra verkefna. Vinnumatinu er ætlað að jafna vinnuálag milli kennara og styrkja faglegt starf innan grunnskóla. Nú eru komin fram drög að leiðarvísi fyrir slíkt vinnumat. Um símenntun og starfsþróun segir í þessum drögum:

Starfsþróun og símenntun

Starfsþróun og símenntun kennara er afar mikilvægur þáttur í skólastarfi. Kennarar þurfa svigrúm og
stuðning til að sinna starfsþróun. Með því byggja þeir ofan á eigin þekkingu og styrkja fagmennsku
sína. Fagmennska kennara er mikilvægasta hreyfiaflið í allri skólaþróun. Hver skóli þarf að móta
menningu sem styður við samstarf kennara um starfsþróun.  

Á hverju ári eru kennurum ætlaðar 150/126/102 klst. sérstaklega til starfsþróunar og aukins
undirbúnings og getur hlutfall hvors þáttar um sig verið mismunandi milli kennara. Mikilvægt er að
kennarar haldi utan um eigin starfsþróun með skipulegum hætti. Starfsþróunaráætlun kennara er
unnin í samvinnu við skólastjóra og tekur bæði mið af símenntunar- og þróunaráætlun skólans og
faglegum þörfum kennara. Að takast á við nýtt námsefni, nýjan aldurshóp eða nýja tækni getur bæði
fallið undir starfsþróun og aukinn undirbúning.

Sérstakur vefur hefur verið settur upp á vegum verkefnisstjórnar um vinnumat: vinnumat.is