Forsaga

Nefnd um endurskipulagningu endurmenntunar kennara 2009-2010

Í mars 2009 skipaði menntamálaráðherra nefnd sem ætlað var að fjalla um mögulega endurskipulagningu á endurmenntun kennara í ljósi nýrra laga og væntanlegra breytinga á skipulagi kennaramenntunar. Nefndin skyldi huga að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru, nánari tengingu endurmenntunartilboða við almenna kennaramenntun og möguleikum kennara á að sækja endurmenntun á fagsviði. Nefndinni var ætlað að koma með tillögur að heildstæðri útfærslu á endurmenntun sem nýtist kennurum á öllum skólastigum.

Nefndin setti meginniðurstöður sínar fram á fjórum eftirfarandi aðgreindum sviðum:

  • Þarfagreining og stefnumótun
  • Viðhorf og verklag
  • Skipulag og framkvæmd
  • Símenntun þvert á skólastig.

Nefndin lauk störfum og skilaði skýrslu í desember 2010. Skoða skýrslu.

Vinnuhópur 2011

Í kjölfar útgáfu Skýrslu nefndar um endurskipulagningu endurmenntunar kennara var stofnaður vinnuhópur til að gera tillögur að því hvaða skref þyrfti að taka til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem í skýrslunni birtust.

Vinnuhópurinn ræddi m.a. eftirfarandi atriði:

• viljayfirlýsingu
• tilhögun formlegs samstarfsvettvangs/samstarfsnefndar
• skilgreiningu hugtaksins símenntun/starfsþróun

Vinnuhópurinn lagði til að ákveðin verkefni væru sett í forgang, s.s. kortlagning á framboði símenntunar, skilgreining hugtakanna símenntun og starfsþróun, stefnumótun til að gera kennurum kleift að sækja sameiginleg námskeið óháð skólastigum og upplýsingaveita á netinu um möguleika kennara til símenntunar.

Vinnuhópurinn undirritaði viljayfirlýsingu 30. júní 2011 um að setja á fót samstarfsnefnd. Þar í voru skilgreindir verkþættir. Lesa yfirlýsingu.

 Samstarfsnefnd um símenntun 2011-2012

Samstarfsnefndin var kölluð saman á fund 11. ágúst 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu þá með sér samkomulag eða sérstaka viljayfirlýsingu um samstarf á sviði símenntunar. Stofnuð var formlega samstarfsnefnd þessara aðila með það að markmiði að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Helstu verkefnin voru þessi:

  • Að samræma og flokka upplýsingar um símenntunartilboð fyrir kennara og koma á laggirnar upplýsingaveitu um framboð símenntunar fyrir kennara.
  • Að setja fram sameiginlegan skilning aðila á því hvað felst í símenntun/starfsþróun kennara og vinna að því að auðvelda kennurum á mismunandi skólastigum að sækja sömu símenntun/starfsþróun, að sækja sameiginleg námskeið, ráðstefnur og þróunarverkefni
  • Vinna við að greiða leið kennara til að nýta sér námsframboð háskólanna samhliða vinnu.
  • Að ræða þróun samræmdra aðferða við skráningu starfsþróunar

Samstarfsnefndin lagði til í lokaskýrslu sinni að fagráð yrði stofnað. Tillaga um stofnun fagráðs.

Hér má lesa skýrslu samstarfsnefndarinnar í heild.