Tillaga um stofnun fagráðs

Samstarfsnefnd um símenntun/starfsþróun kennara var skipuð í ágúst 2011. Eitt af verkefnum hennar er að vinna að sameiginlegri stefnumótun um símenntun/starfsþróun kennara. Sem þátt í þeirri vinnu leggur samstarfsnefnd fram eftirfarandi tillögu um stofnun fagráðs:

Menntamálaráðherra setji á stofn fagráð, setji því erindisbréf og skipi því formann til minnst þriggja ára til að stuðla að markvissri faglegri starfsþróun og starfstengdri símenntun fyrir kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. [1]

Fagráði er ætlað að stuðla að því að markviss fagleg starfsþróun og starfstengd símenntun fyrir kennara verði í boði. Markviss símenntun/starfsþróun kennara er nauðsynlegur þáttur í eflingu og viðhaldi á fagmennsku kennara. Í Lokaskýrslu nefndar um mögulega endurskipulagningu endurmenntunar kennara (2010), segir að „þótt öflug grunnmenntun kennara sé mikilvæg skiptir enn meira máli að stuðla að markvissri faglegri starfsþróun kennara og starfstengdri símenntun“ (bls. 7).

Til að svo megi verða er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar eigi formlegt og markvisst samráð um hvert eigi að stefna. Því samráði er fagráði ætlað að stýra.
Frumdrög tillögunnar voru lögð fram á fundi með mennta- og menningarmálaráðherra 20. febrúar 2012, ráðherra tók vel í hugmyndina og óskaði eftir nánari útfærslu.

Fagráð
Í fagráði eiga sæti fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skólastjórnendum, kennurum og háskólunum þremur sem standa að kennaramenntun. Fagráðið er vettvangur þar sem ólíkir hagsmunaaðilar koma saman, eiga samráð um áherslur í símenntun og starfsþróun kennara og vinna í kjölfar þess kerfisbundið að markvissum áhrifum á stefnumótun í símenntunar- og starfsþróunarmálum kennara. Vinnuaðferðir fagráðs einkennast af samræðu fjölbreytts hóps sem nær út fyrir þann hóp sem skipar fagráðið. Upplýsingaflæði milli baklands fulltrúa í fagráði og fagráðs er grundvöllur vinnu fagráðsins og þær fjölbreyttu upplýsingar sem til verða með því samráði verða sá grunnur sem hugmyndir fagráðs um nýjungar og þróun áherslna byggja á.

Sjá tillöguna í heild