Borði - Grænn í haus

Um þrjátíu áhugasamir þátttakendur sóttu vinnustofu í Menntaskólanum við Sund um starfendarannsóknir í tengslum við ráðstefnuna um framtíðarsýn á kennarastarfið (Future Teachers – a profession at crossroads).

Kynningin var lifandi og fróðleg og sagði starfsfólk frá því, undir forystu Hjördísar Þorgeirsdóttur, að starfendarannsóknin (e. action research) í MS fæli einkum í sér að kennarar ígrundi þann fræðilega og siðfræðilega grunn sem starf þeirra er sprottið úr.  Dýpt ígrundunar hafi áhrif á þátttöku kennara í skólaumræðu og árangur faglegrar þróunar. Fagleg ígrundun byggir á þekkingu á kennslu og uppeldi; meðvitund á félagslegri menningu og sögulegum áhrifum á menntun; skilningi á kerfisbundinni greinandi ígrundun og tengslum milli nauðsynlegra forsenda og fræðilegs skilnings.

Í málstofunni kom fram hve mikilvægt sé að hvetja kennara til þátttöku frekar en að skylda þá, ásamt því að fá utanaðkomandi faglega ráðgjöf til að benda á ýmsar útgönguleiðir, tengingu við kenningar og lestur fræðsluefnis. Dagbókarskráning er lykilhlekkur í starfinu, hún er alltaf höfð meðferðis og allar hugmyndir skráðar um leið og þær rata í koll kennarans. Þegar dagbókin er síðan tekin fram til aflestrar endurmetur kennarinn hugmyndir sínar, kemur einhverju skipulagi á þær og hrindir þeim í framkvæmd. Þátttakendur í málstofunni sýndu dagbókaþættinum sérstaka athygli og spurðu mikið um hlutverk þeirra, til að mynda hvort nemendur héldu einnig dagbók, hvernig samþykkis væri aflað fyrir nýjum hugmyndum og því samhengi var bent á hve mikilvægt sé að hugmyndirnar komi úr grasrótinni.  Elífðarspurningarnar um tíma kennara til verksins og greiðslu til þeirra bar einnig á góma og var bent á að nauðsynlegt sé að setja fastan fund í stundaskrána að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Varðandi þátttöku kennara í starfinu var spurt um hvort kynjamunur væri til staðar og er það raunin að  töluvert fleiri konur eru tilbúnar til þátttöku í verkefninu en karlar. Enginn merkjanlegur munur var á þátttöku kennara eftir aldri en yngri kennarar þekkja til starfendarannsókna í gegnum nám sitt.

Þátttakendur voru ekki óvirkir neytendur í málstofunni því þeir fengu að spreyta sig í mismunandi hlutverkum í samvinnunámi í lokin og áhuginn leyndi sér ekki í andlitum þeirra.

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap