Styttist í umsóknarfrest hjá Erasmus +

Erasmus

Leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar sem og tónlistarskólar og myndlistarskólar sem kenna samkvæmt viðurkenndri námskrá, geta sótt um ferða-, námskeiðs- og uppihaldsstyrki til að senda  kennara og  starfsfólk sitt til að sinna námi, gestakennslu eða starfsþjálfun í einu af þátttökulöndum Erasmus+. Sveitarfélög geta einnig sótt um sambærilega styrki fyrir starfsfólk í skólum síns sveitarfélags.

Skólinn / stofnunin sem sendir umsókn þarf að hafa markað sér stefnu um evrópskt samstarf (European Developing plan) og námið/þjálfunin sem sótt er um þarf að tengjast stefnu stofnunar/ skólans eða starfsþróunaráætlun hans.  Í umsókninni þarf skólinn að útskýra þörfina sem er fyrir hendi hjá skólanum til þess að kynna sér eða tileinka ákveðna kennsluaðferð, tækni eða vinnubrögð og hvernig það nýtist skólanum til að uppfylla stefnu sína betur. Eins þarf að segja frá hvernig sú aukna þekking mun nýtast fleirum í skólanum og styðja við stefnu hans, starfsfólk og nemendur. Lágmarksdvöl eru tveir dagar en getur verið tveir mánuðir.  Hver skóli / stofnun getur  sent fleiri en einn kennara og á fleiri en eitt námskeið / starfskynningu en sendir einungis inn eina heildarumsókn.

Umsóknarfrestur er einu sinni á ári og er næst 4. mars 2015. Umsóknir eru rafrænar og er hægt að nálgast umsóknareyðublöð á vef Erasmus+, ásamt leiðbeiningum og ítarlegri upplýsingum: www.erasmusplus.is

ÞB