Borði - Grænn í haus

Hér skal í stuttu máli sagt frá vinnustofu í Álftanesskóla þar sem fjallað var um verkefnið Uppeldi til ábyrgðar. Judy Anderson, sem unnið hefur með innleiðingu hugmyndafræðinnar hér á landi, fjallaði um grundvallarþætti hennar og gildi. Hún fjallaði nokkuð um starf frumkvöðulsins Diane Gossen sem hefur unnið með kennurum um allan heim að innleiðingu hugmyndafræðinnar í yfir 20 ár. Uppeldi til ábyrgðar er hugmyndafræði sem leggur áherslu á  ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga þar sem þeim er kennt  að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Einstaklingum er kennt að þekkja þarfir sínar, taka eigin siðferðilegar ákvarðanir og læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála í skólum þar sem hún er tekin upp. Þetta er í raun og veru róttæk leið þar sem viðmiðum skólastarfsins er breytt. Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu. Til að hjálpa börnunum (og fullorðnum) inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er áhersla lögð á spurningar eins og: Hvernig viljum við vera? og Hvað við þurfum að gera til að ná takmarki okkar? Skýr mörk skapa það öryggi og traust sem er nauðsynlegt skólasamfélaginu og til að styðja við þau lífsgildi sem hver bekkur og allur skólinn setur saman í félagslegan sáttmála.

Á vinnustofunni voru bæði skólastjórar og kennarar, sem sögðu frá reynslu sinni af innleiðingu Uppeldis til ábyrgðar. Í umræðunni kom fram að fjölmargir skóla á Íslandi hafa verið eða eru að innleiða Uppeldi til ábyrgðar og athyglisvert var heyra um reynslu þeirra. Lofuðu þau hugmyndafræðina. Sögðu innleiðinguna taka langan tíma, það væri alltaf flókið þegar verið væri að vinna með ný gildi og breytt viðhorf, en sjá mætti  góða hluti vera að gerast. Innleiðingin felst m.a. í að undirbúa kennara og starfsfólk skóla til að starfa undir merkjum hugmyndafræðinnar. Mörg dæmi voru nefnd um jákvæðar breytingar í nemendahópnum, meðal kennara og annars starfsfólks og jákvæð áhrif breytinganna á bekkjarbrag og skólaanda.

Staldrað var einkum við í umræðunni hvernig staðið er að innleiðingarferlinu og bent var á að þar eru margir þættir sem ættu almennt við þegar farið er í breytingar á starfsháttum. Og hversu flókið það væri almennt að breyta viðhorfum og fastmótuðum venjum faghópa og stofnunar. Skólastjóri í hópnum benti á að líkja mætti innleiðingingu  þegar unnið er með þessa hugmyndafræði við skógrækt. Mikilvægt væri að hafa skýrt langtímamarkmið og sýna þolinmæði.

Hér er um að ræða spennandi hugmyndafræði sem þegar er farin að hafa áhrif á skólastarf víða um heim en einnig hér á Íslandi. Hér er farin margreynd leið sem hefur að markmiði að styrkja einstaklinginn og gera hann ábyrgan fyrir eigin hegðun, leið sem hefur áhrif á allt starf skólasamfélagsins og það kom skýrt fram hjá skólastjórnendum og kennurum er  sögðu frá reynslu sinni á málstofunni, að breytingar megi sjá á skólabrag , breytingar í átt að aukinni samkennd og umhyggju fremur en samkeppni.

Halla Jónsdóttir

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap