Starfsþróun og starfsánægja kennara til umræðu á ráðstefnu

Menntavísindasvið Háskóla Íslands, í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Kennarasamband Íslands, boðar til ráðstefnu um starfsþróun kennara fimmtudaginn 22. febrúar 2018 kl. 13-16 í húsnæði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Markmið ráðstefnunnar er að efna til samtals meðal þeirra sem koma að starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra fagstétta í skólum en öflug starfsþróun þessara stétta er talin lykilatriði til að stuðla að framförum í menntakerfinu.

Á dagskrá verður erindi um samstarfsráð um starfsþróun kennara, kennarar og skólastjórnandi fjalla um starfsþróunarverkefni í þeirra skólum og Kari Smith, yfirmaður NAFOL og prófessor við Norska tækniháskólann í Þrándheimi (Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet) heldur fyrirlestur um „Stöðugt nám alla starfsævina”.

Í pallborðsumræðum sem fram fara að loknum fyrirlestri verður starfsþróun rædd út frá ýmsum sjónarhornum. Þar er ætlunin að leiða saman ýmsa aðila til að ræða hlutverk samstarfsráðs og háskóla í starfsþróun, væntingar kennara og skólastjórnenda, drifkraft, helstu hindranir, aðstæður og stuðning.

Setning ráðstefnunnar er í höndum Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, mun slíta henni. Ráðstefnustjóri er Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Háskóla Íslands.

Dagskráin í heild sinni

Ráðstefnunni verður streymt á vefnum

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap