Viðamikið þróunarverkefni á vegum samstarfsráðsins

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda stendur fyrir þróunarverkefni um stoðkerfi við starfsþróun. Verkefnið fór af stað síðastliðið haust og mun standa til loka skólaárs 2019- 2020.

Stoðkerfi við starfsþróun merkir í raun fyrirkomulag eða skipulag sem styður við starfsþróun og er í þessu þróunarverkefni m.a. verið að prófa leið að stuðningi háskóla við starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Kennarar þurfa góðar aðstæður og möguleika til stöðugrar og fjölbreyttrar menntunar og starfsþróunar. Æskilegast er að sú menntun sé nátengd við daglegt starf kennara með nemendum. Þátttaka háskóla í starfsþróun á vettvangi er bæði vænleg og æskileg. Með þróunarverkefninu er leitast við að útfæra stoðkerfi fyrir kennara, skóla og háskóla. Æðsta markmiðið er að efla færni og þekkingu fagfólks og auka gæði í skólastarfi.

Helstu markmið þróunarverkefnisins eru að:

  • styrkja samfellu grunnmenntunar kennara og starfsþróunar alla starfsævina,
  • stuðla að tengslum á milli skóla og auka á samfellu í skólakerfinu,
  • móta skipulag sem styður við starfsþróun kennara í daglegu skólastarfi,
  • móta skipulag sem hvetur til innleiðingar lærdómssamfélags,
  • móta skipulag þar sem tekið er tillit til stefnu um menntun án aðgreiningar,
  • móta skipulag sem gerir ráð fyrir auknum tengslum háskóla og vettvangs,
  • leggja leiðbeinandi mat á framkvæmd verkefnisins og útkomu.

Fjórir skólar taka þátt í þróunarverkefninu: Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík, Borgarhólsskóli Húsavík, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Tónlistarskóli Reykjaness. Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Listaháskóli Íslands veita skólunum faglegan stuðning í tengslum við verkefnið. Skólarnir setja niður fyrir sér og afmarka viðfangsefni innan þróunarverkefnisins. Nálgun skólanna er ólík:

Borgarhólsskóli:
Áhersla er á að efla það viðhorf og styðja við þá nálgun að starfsþróun sé samfelld og eðlilegur þáttur skólastarfsins. Um er að ræða eflingu lærdómssamfélags innan skólans. Gerð hefur verið könnun til að meta stöðuna núna og rætt er um hvernig kennarar vilja sjá starfsþróunina í skólastarfi. Sérstaklega hefur verið rætt um nýliða og stuðning við þá – og einnig skólastarf á 21. öldinni.

Tónlistarskóli Reykjaness:
Áhersla er á að skoða nýjar matsaðferðir í tónlistarkennslunni og –náminu. Hugmyndin er að setja inn meira símat og sjálfsmat nemenda. Setja þarf fram hæfniviðmið fyrir hverja önn. Um er að ræða fyrst og fremst einstaklingskennslu í tónlistarskólanum.

Grænuvellir:
Áherslan er sett á læsi til að byrja með og verður það hjartað sem síðan má byggja ofan á. Gerð verði persónubundinn áætlun fyrir starfsmenn (módel), þar sem auðvelt er að fylgjast með þróuninni. Í áætluninni er tekið tillit til hæfileika einstaklinga. Sérstaklega verður gætt að nýju starfsfólki hvað varðar handleiðslu.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja:
Tvö þemu innan verkefnisins: a) starfsþróun kennara og b) það sem skólinn getur boðið upp á í starfsþróun. Hugmyndin að setja fram starfsþróunarmódel sem hefði yfirfærslugildi. Verkefnið skoðað útfrá starfendarannsóknum og hugmyndum um lærdómssamfélag.

Birna Sigurjónsdóttir og Hjördís Þorgeirsdóttir meta þróunarverkefnið, framkvæmd þess og útkomu.

Samstarfsráðið lítur með mikilli bjartsýni til þessa verkefnis og trúir að það skili okkur ýmsum verkfærum til að styðja við starfsþróun kennara í framtíðinni.

Scroll to top
Copy link
Powered by Social Snap